Námskeið gegn flugfælni

Námskeið gegn flugfælni

Icelandair efnir til námskeiðs fyrir fólk sem vill takast á við flugfælni. Slík námskeið eru yfirleitt haldin á vegum flugfélaga í löndunum í kringum okkur og hafa flest svipaða uppbyggingu. Kenndar verða aðferðir til að vinna bug á kvíða og fælni og farið yfir þætti sem tengjast flugvélinni og fluginu sjálfu. Námskeiðinu lýkur með flugferð til eins af áfangastöðum Icelandair í Evrópu.

Leiðbeinendur eru Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur óg Páll Stefánsson flugstjóri.

Hvað er flughræðsla? 
Flughræðsla er ótti við að ferðast með flugi. Hún tengist fyrst og fremst flugvélum og því að fljúga og stundum er fólk ekkert hrættt við annan 
ferðamáta. Hræðslan getur verið væg, þannig að fólk finni aðeins til óþæginda að fljúga við vissar aðstæður eins og í ókyrrð og yfir, að að vera yfirþyrmandi ótti tengdur flugi þannig að allra bragða er neytt til að forðast flug. Þá má tala um flugfælni.
Ef einhber þekkir sig í þessari lýsingu á flughræðslu er best að snúa sér til Flugleiða sem sjá um skáningu á námskeiðið, þar eru allar frekari upplýsingar gefnar.

Skráning er á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Fleiri upplýsingar um næsta námskeiðið fáið þið hér í Sálfræðistöðinni.

____________________________________________________________________

 

UM FLUGHRÆÐSLU 

Hefur flughræðsla mikil áhrif á líf fólks ?
Í nútímanum þarf fólk og vill geta hreyft sig og ferðast um heiminn ólíkt því sem áður var. Það hefur komið fram á námskeiðum okkar að fólk hefur lengi liðið fyrir að vera flughrætt. Þegar óttinn er orðinn að fælni hefur það margvísleg áhrif á líf fólks, það forðast til dæmis ferðalög til útlanda með fjölskyldu og vinum þrátt fyrir þrýsting og oft koma upp leiðindi vegna þessa. Einnig segjast margir þurfa að geta flogið starfs síns vegna og geta í raun ekki sinnt því sem skyldi nema takast á við óttann. Það er ekki óvanalegt að fólk hafi reynt um langa hríð að fela hvernig þeim líður því þeim finnst minnkun að því að óttast þetta þegar svo margir fljúga eins og ekkert sé.

Hvað varir flughræðsla lengi?
Þegar flughræðsla er orðin til þá viðheldur hún yfirleitt sjálfri sér og magnast. Þannig er það venjulega að flughræðslan hættir ekki af sjálfu sér. Þetta þekkja flestir sem hafa fundið fyrir flughræðslu, hún mallar áfram og þegar illa stendur á svo sem að manneskjan verði illa upplögð í einhverri ferðinni eða lendir í slæmu veðri, þá blossar hún upp aftur og magnast áfram. Það verður að taka markvisst á þessum vanda til þess að árangur verði til frambúðar.

Hvernig verður fólk flughrætt, gerist það allt í einu eða eru sumir það frá frá fyrstu tíð?
Það getur verið bæði og þeir sem eru sérlega næmir fyrir að verða hræddir hafa oft verið í nánum samskiptum við aðra hrædda. Þeir hafa lært að óttast aðstæðurnar af því að þeir taka sér aðra til fyrirmyndar. Þetta á til dæmis við ef foreldri er hrætt við að fljúga. Þá er líklegt að það setji ósjálfrátt upp angistarsvip í flugtaki sem barnið sér og tengir sjálft saman við stund og stað. Það verður svo smám saman óttaslegið og forðast síðar sömu aðstæður. Aðrir hafa lennt í óþægilegri reynslu sem hefur bitið sig fast í huganum. Það getur til dæmis verið að lenda í slæmu veðri þar sem vélin hristist til. Maður verður hræddur, hann heldur að vélin og farþegarnir séu í hættu og í næsta skipti sem hann ætlar að fljúga kemur kvíðinnn upp í hugann og hann fer að leita annarra leiða.

En hvað er fólk hrætt við?
Það kemur oft fram að fólk er hrætt við ókyrrð, að vélin bili og hrapi jafnvel eða brotlendi. En einnig hafa sumir innilokunarkennd og eiga erfitt með að vera í lokuðu rými. Aðrir tala um að þeim finnist þeir vera svo hjálparlausir og vanmáttugir að stjórna engu sjálfir um borð.

Hvernig hugsar sá sem er flughræddur?
Það er algengt að fólk haldi að eitthvað hræðilegt geti gerst. Sá sem er svona hræddur er um leið vankunnandi um hvað er um að vera og það eykur mjög hræðsluna. Þetta gerist oft þannig að hann fer að túlka öll hljóð,hreyfingar og lykt á þann veg að það ýtir undir óttann. Hann tekur sérlega vel eftir því sem hann er hræddur við og spennist æ meir. Dæmi um slíka hræðslutúlkun er þegar flugfreyja gengur frekar hröðum skrefum og fer fram í flugstjórnarklefann, þá gæti hugsunin verið "nú hafa flugmennirnir kallað í hana, því hætta er á ferðum og vélin nauðlendir líklega." næsta hugsun er kanski "mér fannst hún einmitt vera með áhyggjusvip". Sá flughræddi fer nú að finna að hann andar hraðar og að hjartsláttur hans eykst. Hann grípur um stólkarmana og fer að skima í kringum sig til að sjá hvort aðrir hafi áttað sig á stöðunni. Þó svo að flugfreyjan komi brosandi út úr flugstjórnarklefanum skömmu síðar og honum létti talsvert, þá er stutt í næsta óttakast ef vélin hristist eða annað atvik kveikir á óttahugsun.

Hvernig meðferð virkar á þessa líðan?
Hugræn atferlismeðferð er sú leið sem hefur gefið góðan árangur í meðferð á flugfælni og við notum hana hér á landi. Lykillinn í meðferðinni er að kenna þeim flughrædda á eigin hugsun, að þekkja vítahringinn sem kvíðahugsun og mistúlkun á aðstæðum hrindir af stað og verður loks að alvarlegum ótta við að fljúga. Til þess að vinna bug á þessu þarf hann að læra út á hvað flug gengur, um flugvélina, flug, veður, öryggi og hvaðeina sem skiptir máli þannig að þekking komi í stað vanþekkingar. Þær vélrænu kvíðahugsanir sem hann er vanur þarf hann að endurmeta og læra að gera nýtt"forrit"í staðinn. En ekki síst þarf að læra að takast beint á við kvíða, líkamlega spennu og vanlíðan. Í þeim tilgangi eru kenndar aðferðir sem eru reyndar í tímum en einnig í heimavinnu.
Námskeiðsprógrammið tekur um það bil mánuð, eitt kvöld í viku og endar á flugferð til Evrópu þar sem reynt er á nýju hæfnina að fljúga.

Hvað með árangur?
Ég hef einkum notað tvenns konar próf til að mæla breytingar og árangur. Fólk fyllir í listana í byrjun, meðan námskeiðið stendur og 6 mánuðum síðar. Í eftirfylgninni gera þáttakendur mat á námskeiðinu og lýsa flugferðum, ef einhverjar hafa verið eftir námskeiðið. Á alþjóðlegu flugfælniþingi í Vínarborg í lok árs 2000 var íslenska prógrammið kynnt og árangur af 6 námskeiðum sýndur. Samkvæmt prófunum á flughræðslu við mismunandi aðstæður hafði hræðsla marktækt minnkað frá byrjun til loka og hélst í eftirfylgni. Sama mældist um kvíðaeinkenni að þau minnkuðu marktækt á sama tíma og sú minnkun hélst í eftirfylgni. Það ánægjulega var að yfir 85 % þeirra sem svöruðu höfðu flogið eftir námskeiðið og margir lýstu sérstaklega hvernig þeim fyndist þeir hafa fengið nýtt frelsi. "við erum búin að skipuleggja tvær ferðir á næsta ári og ég hlakka til, sem ég hefði aldrei trúað fyrir námskeiðið." eða "nú ætlum við hjónin að leggjast í ferðalög og heimsækja börnin við nám erlendis, maðurinn minn sendir sérstakar þakkir líka" og "mér finnst meira að segja flugvélar orðnar fallegar þar sem þær svífa í loftinu"!

Hvað ef einhver þekkir sig í þessari lýsingu á flughræðslu, hvert á hann að snúa sér?
Flugleiðir standa fyrir námskeiðinu og skrá á það á skrifstofunni. Þar eru allar frekari upplýsingar gefnar. Einnig er hægt að hringja í 50 50 300 eða skrá sig í námskeið á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.